9.05.2005

Varríus les Biblíuna

Varríus er að lesa bók. Og ekki bara einhverja bók eins og venjulega, heldur Bók. Bókina. Bók bókanna. Sjálfa Biblíuna.

Það hefur lengi staðið til að lesa ritninguna. Eiginlega fáránlegt að hafa ekki gert það. Út í hött að þykjast skilja vestræna menningu án þess. Fyrir nokkrum árum byrjaði ég en þraut erindið tiltölulega snemma. Núna verður ekki gefist upp, enda verður allur heimurinn til vitnis.

Ég hef nefnilega ákveðið að skrifa pistla eftir hverja bók og birta hér. Gera grein fyrir pælingum sem kvikna, spurningum sem vakna, og skoðunum sem myndast.

Að sjálfsögðu er ég að vona að sem flestir Varríusarlesendur fylgi fordæminu, leggist yfir ritninguna með mér og kommenti sem aldrei fyrr. Svoleiðis leshringur yrði heldur en ekki skemmtilegur.

En fyrst smá vangaveltur um forsendur.

Það er ekki laust við að maður fái í herðarnar þegar Biblían er opnuð með svona markmið í huga. Ekkert skrítið, því á þeim sitja herskarar af ofstækisfullum bókstafstrúarmönnum, álíka fanatískum trúleysingjum, sprenglærðum og þrætubókarfimum guðfræðingum og mærðafullum kirkjuklerkum. Fyrir nú utan alla þá spekinga og listamenn sem hafa sótt innblástur að brilljant hugmyndum í þetta grundvallarrit Vesturlanda.

Það er innprentað í mann að þetta sé ekki nein venjuleg bók og ekki hægt að lesa hana sem slíka. Gegn slíku viðhorfi talar agnostísk rödd skynsemishyggjumannsins og heimtar að hún sé einmitt lesin með hlutlausu auga, ef hún er merkilegri en aðrar bækur hljóti hún að segja lesandanum það sjálf. Háværar raddir bókstafstrúarmanna kalla á leit að atriðum til að spæla þá með: mótsögnum, loðmullu, úreltum fyrirmælum. Hluta af manni langar einfaldlega til að heillast. Von mín er að geta haldið þessum ólíku röddum í einhverskonar jafnvægi.

Biblían verðskuldar augljóslega þá virðingu af lesanda sínum að það sé heilmikið í hana spunnið þó stundum sé erfitt að sjá það. Svona svipað og að lesa Shakespeare, Kafka eða Beckett. Staða hennar sem trúarrit krefst þess jafnframt að hún sé spurð erfiðra spurninga. Það á ekki að þurfa að teygja sig út fyrir mörk rökvísi, skynsemi og málskilnings til að fá vit í það sem í henni stendur. Enda þýddi það að vitið væri ekki úr henni heldur lesandanum.

Í öllu falli vona ég að lesturinn kenni mér að lesa Biblíuna. Þá er til nokkurs stautað.

Tvö hjálpargögn sem stuðst verður við:

BibleGateway er gríðarlegur gagnagrunnur með Ritningunni á ótal tungumálum og fjölmörgum útgáfum á ensku. Þarna er t.d. hægt að skoða Íslensku Biblíuna, og svo er þetta gríðarlega gott áhald til að skoða skrítna staði með samanburði á þýðingum.

Wikipedia er eitt magnaðasta fyrirbæri á netinu. Þar er gríðarlegt magn af fróðleik um ótrúlegustu hluti. Mögulega ekki allt satt og rétt, enda misjafn sauður sem skrifar. En heilt yfir alger snilld.

Engin ummæli: