12.14.2005

Dómarabókin


Textinn
Samanburður
Kynning


When will they ever learn?

Dómarabókin greinir frá tímabilinu frá landtöku og langleiðina þar til konungsríki er stofnað. Þetta er róstursamur tími, enda ljóst að nóg er enn af villutrúarþjóðum innanum Gyðingana til að gera þeim skráveifur eða freista þeirra með guðum sínum. Reyndar er bókin svolítið eins og formúlukennd framhaldssaga þar sem hver kaflinn er öðrum líkur að uppbyggingu:

Gyðingarnir gleyma guði og "taka framjá" með skúrgoðum nágranna sinna.

Guð leyfir einhverjum nágrannanna að undiroka þá í nokkra áratugi.

Gyðingarnir kveinka sér.

Guð sendir þeim Dómara sem siðar þá og leiðir þjóðina í framhaldinu til sigurs yfir óvinum sínum.

Endurtakist eftir þörfum.

Sem betur fer eru sögurnar þó með smá tilbrigðum.

Sagan í þriðja kafla segir frá Ehúð Gerasyni af húsi Benjamíns. Hún þykir mér ágætt dæmi og smáatriðin í henni hið fegursta krydd. Þessa sögu hafa ritendur Íslendingasagna klárlega lesið sér til (ó)bóta:

Ísraelsmenn gjörðu enn af nýju það, sem illt var í augum Drottins. Þá efldi Drottinn Eglón, konung í Móab, móti Ísrael, af því að þeir gjörðu það, sem illt var í augum Drottins. Hann safnaði að sér Ammónítum og Amalekítum, fór því næst og vann sigur á Ísrael, og þeir náðu pálmaborginni á sitt vald.

Ísraelsmenn þjónuðu Eglón, konungi í Móab, í átján ár. Þá hrópuðu Ísraelsmenn til Drottins, og Drottinn vakti þeim upp hjálparmann, Ehúð, son Gera Benjamíníta, en hann var maður örvhentur. Ísraelsmenn sendu hann með skatt á fund Eglóns, konungs í Móab.

Ehúð hafði smíðað sér sax tvíeggjað, spannarlangt. Hann gyrti sig því undir klæðum á hægri hlið. Og hann færði Eglón, konungi í Móab, skattinn, en Eglón var maður digur mjög.

Er hann hafði borið fram skattinn, lét hann mennina fara, er borið höfðu skattinn. En sjálfur sneri hann aftur hjá skurðmyndunum í Gilgal.

Ehúð sagði við konung: "Leyndarmál hefi ég að segja þér, konungur."

Konungur sagði: "Þei!" og allir þeir gengu út, er kringum hann stóðu.

Þá gekk Ehúð til hans, þar sem hann sat aleinn í hinum svala þaksal sínum, og mælti: "Ég hefi erindi frá Guði við þig." Stóð konungur þá upp úr sæti sínu. En Ehúð greip til vinstri hendinni og þreif sverðið á hægri hlið sér og lagði því í kvið honum. Gekk blaðið á kaf og upp yfir hjöltu, svo að fal blaðið í ístrunni, því að eigi dró hann saxið úr kviði honum. Gekk hann þá út á þakið.

Síðan gekk Ehúð út í gegnum forsalinn og lukti dyrunum á þaksalnum á eftir sér og skaut loku fyrir. En er hann var út genginn, komu þjónar konungs og sáu þeir að dyrnar á þaksalnum voru lokaðar og sögðu: "Hann hefir víst sest niður erinda sinna inni í svala herberginu." Biðu þeir nú, þar til er þeim leiddist biðin. Og er hann enn ekki lauk upp dyrunum á þaksalnum, þá tóku þeir lykilinn og luku upp, og lá þá herra þeirra dauður á gólfinu.


Aðrar eru mínímalísk snilld, sem myndi sóma sér vel á Baggalút, eða þá hjá Hugleiki Dagssyni:

Eftir Ehúð kom Samgar Anatsson. Hann felldi af Filistum sex hundruð manna með staf, er menn reka með naut. Þannig frelsaði hann einnig Ísrael.


Í frásögninni af Gídeon er þessi fallega og manneskjulega mynd af Hinum Þolinmóða Guði (sem er kannski ekki sú lyndiseinkun sem fyrst kemur upp í hugann við lestur bókarinnar:

Þá sagði Drottinn við hann: "Ég mun vera með þér, og þú munt sigra Midíaníta sem einn maður væri."
Gídeon svaraði honum: "Hafi ég fundið náð í augum þínum, þá gjör mér tákn þess, að það sért þú, er við mig talar. Far ekki héðan burt, fyrr en ég kem aftur til þín og færi hingað út fórnargjöf mína og set hana fram fyrir þig."
Og Drottinn sagði: "Ég mun bíða hér, þar til er þú kemur aftur."


Það er svo undir hverjum og einum lesanda komið að ímynda sér raddblæ Guðs þegar hann fellst á að hinkra eftir fórninni. Sýður í honum bræði yfir ósvífninni? Eða þykir honum gaman hvað Gídeon er höfðingjadjarfur?

Sagan af Jefta hefur kunnuglegt stef sem víða sést í fornum bókum. Hann lofar sumsé Guði að fórna honum í brennifórn þann fyrsta sem gengur um dyr sínar ef sigur vinnst í orrustu. Guði er þetta ekki meira á móti skapi en svo að Jefta sigrar Ammónítana sem kúga Ísrael. Og viti menn: fyrst til að ganga um dyrnar er engin önnur en dóttir hans, ónafngreind. Eins og þjáningarsystir hennar handan hafsins, hún Ífígenía, þá er hún ekki með múður, heldur segir:

Gjör þetta fyrir mig: Lát mig fá tveggja mánaða frest, svo að ég geti farið hér ofan í fjöllin og grátið það með stallsystrum mínum, að ég verð að deyja ung mær.

Og það varð úr. Og síðan, með dæmigerðum stíl þessarar bókar:
En að tveim mánuðum liðnum sneri hún aftur til föður síns, og hann gjörði við hana samkvæmt heiti því, er hann hafði unnið. En hún hafði aldrei karlmann kennt.


Mórallinn: Gættu tungu þinnar.

Og kannski líka: Guð er miskunnsamur. En við tækjum ekki eftir því nema af því að stundum er hann það ekki.

Þetta stef er víða að finna í þjóðsögum heimsins. En annað minni af hroðalegra taginu kannast ég ekki við annarsstaðar en í Góðu bókinni. Í nítjánda kafla segir frá Levíta nokkrum sem leggur í ferð með konu sinni:

... er þeir voru hjá Gíbeu, sem heyrir Benjamín. Viku þeir þar af leið til þess að fara inn í Gíbeu til gistingar. Og er hann kom þangað, staðnæmdist hann á bæjartorginu, en enginn tók þau inn í hús sitt til gistingar.

Maður nokkur gamall kom frá vinnu sinni utan af akri um kveldið. Hann var frá Efraímfjöllum og bjó sem útlendingur í Gíbeu, en mennirnir, sem þarna bjuggu, voru Benjamínítar. Og er honum varð litið upp, sá hann ferðamanninn á bæjartorginu. Þá sagði gamli maðurinn: "Hvert ætlar þú að fara og hvaðan kemur þú?"

Hinn svaraði honum: "Við komum frá Betlehem í Júda og ætlum innst inn í Efraímfjöll. Þaðan er ég. Ég fór suður til Betlehem og er nú á heimleið, en enginn hefir boðið mér hér inn til sín. Við höfum bæði hálm og fóður handa ösnum okkar, svo og brauð og vín handa mér og ambátt þinni og sveininum, sem er með þjónum þínum. Hér er einskis vant."

Þá sagði gamli maðurinn: "Vertu velkominn! Lofaðu mér nú að annast allt, sem þig kann að bresta, en úti máttu ekki liggja í nótt hér á torginu." Og hann leiddi hann inn í hús sitt og gaf ösnunum, og þau þvoðu fætur sína og átu og drukku.

Nú sem þau gæddu sér, sjá, þá umkringdu borgarmenn - hrakmenni nokkur - húsið, lömdu utan hurðina og kölluðu til gamla mannsins, húsbóndans: "Leið út manninn, sem til þín er kominn, að vér megum kenna hans."

Þá gekk maðurinn, húsbóndinn, út til þeirra og sagði við þá: "Nei, bræður mínir, fyrir hvern mun fremjið ekki óhæfu. Fyrst þessi maður er kominn inn í mitt hús, þá fremjið ekki slíka svívirðingu. Hér er dóttir mín, sem er mey, og hjákona hans, ég ætla að leiða þær út, og þær megið þér taka nauðugar og gjöra við þær sem yður vel líkar, en á manni þessum skuluð þér ekki fremja slíka svívirðingu." En mennirnir vildu ekki hlýða á hann. Þá þreif maðurinn í hjákonu sína og leiddi hana út á strætið til þeirra, og þeir kenndu hennar og misþyrmdu henni alla nóttina, allt til morguns, og slepptu henni ekki fyrr en dagur rann.

Þegar birta tók af degi, kom konan og féll niður fyrir húsdyrum mannsins, þar sem bóndi hennar var inni, og lá þar, uns bjart var orðið. En er bóndi hennar reis um morguninn og lauk upp húsdyrunum og gekk út og ætlaði að halda af stað, sjá, þá lá konan, hjákona hans, úti fyrir dyrunum með hendurnar á þröskuldinum. Hann mælti þá til hennar: "Stattu upp, við skulum halda af stað!" - en fékk ekkert svar. Þá lét hann hana upp á asnann, og maðurinn tók sig upp og hélt heim til sín.


Enga hliðstæðu þessarar sögu man ég eftir að hafa séð í öðru fólklori, ekki hjá Grimmsbræðrum, ekki í grískum sögum. Ekki einu sinni í inúítaþjóðsögunum sem Ágústa Skúladóttir notar stundum og eru hinar hroðalegustu. Glöggir biblíulesendur kannast hinsvegar strax við sig, því samskonar frásögn er að finna í 1. Mósebók, 19. kafla. Þar er á ferð Lot nokkur og borgin er Sódóma. Það fór nú eins og það fór. Eða eins og Séra Frosti segir í Jólaævintýrinu:

"Það eru skemmtilegar sögur!"

Hér er sumsé eitt af því sem greinir trúarrit okkar kristinna frá öðrum þjóðsögum. Til hamingju með það. En að þessu sinni er það ekki Guð sem gengur í að hefna óhæfunnar. Eftirmál þessara atburða, sem jafnframt er síðasti hluti bókarinnar eru áframhaldandi manngerð hroðaverk.

Hinni óhreinu konu sem fyrir árásinni varð er slátrað. Ísraelsmönnum er safnað saman til að hefna óhæfunnar á Benjamínsættkvísl. Þeir drepa góðan slatt og sverja að gefa engum af þeirri ættkvísl dætur sínar til kvonfangs. Engu að síður þykir þeim sárt að engar hafi Benjamínsmenn konurnar, og þá er ekki nema um eitt að ræða: Ræna þeim í næstu sveit. Dómarabókinni líkur á snaggaralegum lýsingum á fjöldamorðum og meyjaránum, og svo þessum lokaorðum sem vel má vera að séu hugsuð sem kaldhæðni:

Í þá daga var enginn konungur í Ísrael. Hver maður gjörði það, sem honum vel líkaði.


Dómarabókin er svakaleg bók, dimm og full af grimmd og ofbeldi sem á rætur í illskiljanlegum hugsunarhætti. Guði líkar illa að fólkið sé að sleikja sér upp við aðra Guði, en lætur mennina sjálfa að öðru leyti næsta óáreitta með sínar erjur. Eftir að hafa verið "Hands-On" stjórnandi á sínu fyrsta skeiði er hann farinn að prófa að Sleppa og Treysta.

Hvað sem öðru líður hvarflar ekki að honum, frekar en öðrum ábyrgðaraðilum, að segja af sér.

15 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er örugglega „Góða“ bókin sem þú ert að lesa? En þetta ber væntnalega ekki að taka bókstaflega heldur í yfirfærðri merkingu.

Varríus sagði...

Eins og Njála - ljót en góð

Nafnlaus sagði...

Þú tókst ekki fram að það var hann sjálfur sem slátraði konunni og bútaði hana í sundur. Og póstaði.

29 En er hann kom heim, tók hann hníf, þreif hjákonu sína og hlutaði hana alla sundur í tólf hluti og sendi þá út um alla Ísraels byggð.

Gummi Erlings sagði...

Væri nú ekki gaman ef Mel Gibson tæki sig nú til og gerði mynd upp úr Dómarabókinni af jafnmiklu raunsæi og hann gerði í Passion? Væri einhver til í að horfa á þá mynd til enda?

Nafnlaus sagði...

Ég var einmitt að lesa síðustu söguna um daginn í meðförum snillinganna á http://www.thebricktestament.com/

http://www.thebricktestament.com/judges/gang_rape_and_dismemberment/jg19_01.html

Keep up the good work!

Nafnlaus sagði...

Hmmm... eitthvað skolaðist hlekkurinn til. Hann er svona - en vitaskuld án línubilsins.

http://www.thebricktestament.com/judges/gang_rape_
and_dismemberment/jg19_01.html

Varríus sagði...

Grrr hvað þetta er mikil snilld!

Eða eins og Blogger orðar það, væntanlega á grænlensku:

nvqnamqn!

Ásta sagði...

Stórkostleg hugmynd. Vel til fundið. Mæli með að Melli ráði þessa í að gera storyboards...

Nafnlaus sagði...

Þessi Lego-biblía er stórkostlegt listaverk. Hvílík hugmynd.

Nafnlaus sagði...

... og fyrir algera tilviljun átti ég leið í Eymundsson í Austurstræti rétt eftir þetta síðasta komment og viti menn ... þar er BÓKIN til á efstu hæðinni; The Brick Testament ... og m.a.s. önnur upp úr Nýja testamentinu; The Brick Christmas. Fallegar jólagjafir.

Nafnlaus sagði...

Látið ekki svona. Maðurinn hlutar konu sína í sundir eftir að hún er látin. Þetta hljómar hjá ykkur eins og hann hafi gengið frá henni eftir að hann kom heim. Ekki það að ég mæli með því að lík séu almennt hlutuð í sundur og send heimshornanna á milli.

Hvað verknaðinn varðar þá á þetta að vera hrottalegt og segir strax á eftir: "Eigi hefir slíkt við borið og eigi hefir slíkt sést síðan er Ísraelsmenn fóru af Egyptalandi allt fram á þennan dag!"

Þar eru einmitt svona textar sem eru svo heillandi við Gamla testamentið. Það er ekkert verið að fegra hlutina. Maðurinn er sýndur í öllum sínum breiskleika. Og Guð er ekki einhver kærleiksgufa (eins og í dag) heldur stórbrotinn, óútreiknanlegur og sérvitur.

Varríus sagði...

Var hún dáin? Er það nú ekki óskhyggja:

Þegar birta tók af degi, kom konan og féll niður fyrir húsdyrum mannsins, þar sem bóndi hennar var inni, og lá þar, uns bjart var orðið. En er bóndi hennar reis um morguninn og lauk upp húsdyrunum og gekk út og ætlaði að halda af stað, sjá, þá lá konan, hjákona hans, úti fyrir dyrunum með hendurnar á þröskuldinum. Hann mælti þá til hennar: "Stattu upp, við skulum halda af stað!" - en fékk ekkert svar. Þá lét hann hana upp á asnann, og maðurinn tók sig upp og hélt heim til sín.

En er hann kom heim, tók hann hníf, þreif hjákonu sína og hlutaði hana alla sundur í tólf hluti og sendi þá út um alla Ísraels byggð. En hverjum þeim, er sá það, varð að orði: "Eigi hefir slíkt við borið og eigi hefir slíkt sést síðan er Ísraelsmenn fóru af Egyptalandi allt fram á þennan dag! Hugleiðið þetta, leggið á ráð og segið til!"


Og Jakobsbiblían:

And her lord rose up in the morning, and opened the doors of the house, and went out to go his way: and, behold, the woman his concubine was fallen down at the door of the house, and her hands were upon the threshold.

 And he said unto her, Up, and let us be going. But none answered. Then the man took her up upon an ass, and the man rose up, and gat him unto his place.

 And when he was come into his house, he took a knife, and laid hold on his concubine, and divided her, together with her bones, into twelve pieces, and sent her into all the coasts of Israel.


Leturbreyting Varríusar.

Konan er klárlega í sjokki, sem vonlegt er. En dauð? Veit það ekki.

Og já, gamlatestamentið er heillandi. En það er heillandi á hrollvekjandi hátt. Heillandi sem safaríkar, kraftmiklar furðusögur sem lýsa framandi heimi fullum af grimmd og brjálæði.

Ég held - og eiginlega vona - að það verði enginn kristinn af því að lesa það, enda erfitt að elska Guð eins og hann birtist þar. Óttast, jú, en ekki elska.

Þorkell talar svolítið eins og John Lennon-aðdáandi sem skilur ekki af hverju þeir sem ekki eru jafn heitir í trúnni og hann eru ekki að fíla Two Virgins eða Life with the lions af því að þar er goðið svo "óútreiknanlegt" og "sérviturt" en áttar sig ekki á því að til að umbera sérviskuna þarf maður að hafa heillast af Imagine og Woman

Nafnlaus sagði...

"Stattu upp, við skulum halda af stað!" - en fékk ekkert svar. Þá lét hann hana upp á asnann, og maðurinn tók sig upp og hélt heim til sín."

Þetta er bara dæmigerð knapp lýsing í anda bókarinnar. Þetta er alveg í anda íslendingasagnanna. Ekkert verið að segja of mikið og helst dregið úr. Það þarf ekki mikinn snilling til að lesa á milli línanna að hún sé dáin, þótt þú hafir grafið upp eina þýðingu sem gerir þetta eitthvað smá óvíst.

Hvað Guð í G.t. varðar (og því nýja ef út í það er farið) þá lít ég svo á að lýsingarnar segi meira um menninguna og fólkið en Guð. Sem guðfræðingur (vil taka fram að ég er ekki prestur) les ég þessa texa sem hverja aðra sagnfræði. Ég veit ekkert hvort Guð er til eða ekki og Biblían sannar hvorki tilvist hans né afsannar. Hún segir okkur hins vegar heilmikið um þá menningu og heimsmynd sem var þarna til staðar. Það er einmitt sem heillaði mig við guðfræðina.

Gadfly sagði...

Mér finnst það nú kannski ekki vera neitt aðalatriði hvort hún var búin að gefa upp öndina eða ekki. Hann var þegar búinn að selja hana í hendur misyndismönnum og þar með ábyrgur fyrir meðferðina á henni.

Hvað skyldi fá Ármann til að halda að sögurnar eigi að lesa með "yfirfærðri merkingu"?

Nafnlaus sagði...

Nú það er bara gjarnan viðkvæðið hjá þeim sem trúa á biflíuna þegar maður segir „oj bara, þetta var ógeðslegt“ um eitthvað í henni.