Samanburður
Kynning
Boðorðin og besefinn
Þetta er bók Davíðs konungs, sem er klárlega klókari, klárari og betri konungur en Sál greyið var. Þrátt fyrir allskyns útafkeyrslur virðist Guð hafa næga trú á Dabba til að fara ekki að finna honum óskyldan mótframbjóðanda. Engu að síður er valdatími hans svo sannarlega ekki sléttur og felldur á nokkurn hátt. Sem er gott fyrir oss lesendur en óneitanlega öllu verra fyrir sögupersónurnar.
Bókin hefst þar sem hinni fyrri lýkur. Sál er fallinn og Davíð fær fréttirnar. Að fornum sið lætur hann stytta sendiboðana að ofanverðu. Næst fáum við niðjatal:
Davíð fæddust synir í Hebron: Frumgetinn sonur hans var Amnon, með Akínóam frá Jesreel. Annar sonur hans var Kíleab, með Abígail, er átt hafði Nabal í Karmel, hinn þriðji Absalon, sonur Maöku, dóttur Talmaí, konungs í Gesúr, hinn fjórði Adónía, sonur Haggítar, hinn fimmti Sefatja, sonur Abítalar, og hinn sjötti Jitream, með Eglu, konu Davíðs. Þessir fæddust Davíð í Hebron.
Glöggir lesendur sjá að mæðralistinn er jafnlangur sonalistanum.
„Hann er að taka þær“ er stundum sagt um svona menn í mínum vinakreðsum.
Ætli við verðum ekki að leita allt til sjálfs Gene Simmons til að finna jafn kyn- og tónelskan gyðing. En þegar Chaim Witz kemur til sögunnar er reyndar bæði búið að finna upp getnaðarvarnir, sem hefðu losað Davíð við krakkaskarann og þá umtalsverðu armæðu sem hann á eftir að hafa af afkomendum sínum, og Platform-skó sem hefðu jafnað hæðarmuninn í slagnum við Golíat.
Merkilegt nokk þá eru það einmitt holdsins fýsnir sem afvegaleiða Davíð og afkomendur hans og valda allri ógæfu þessa hluta þjóðarsögunnar.
Það fer nú sakleysislega af stað. Davíð heimtar Míkal, dóttur Sáls. Vandinn er að hún er öðrum manni gefin. Frásögnin af því sem síðan gerist er kaldranaleg en líka einhvernvegin alveg frábær:
Þá sendi Ísbóset og lét taka hana frá manni hennar, Paltíel Laíssyni. Og maður hennar fylgdi henni með miklum gráti til Bahúrím. Þá sagði Abner við hann: „Farðu nú heim aftur!“ Fór hann þá aftur heim.
Það verður nú ekki mikið kaldhamraðra. Þetta er fínt, finnst Guði, svona nokkuð heyrir greinilega ekki undir boðorðið um að drýgja hór. Drottinn á samt eftir að hrista hausinn yfir greddunni í Davíð og drengjum hans áður en lýkur. Samfarir þeirra Davíðs og Míkal verða hvorki miklar né merkilegar. Henni nefnilega ofbýður snemma strípihneigð eiginmannsins:
En er örk Drottins kom í Davíðsborg, leit Míkal, dóttir Sáls, út um gluggann, og er hún sá Davíð konung vera að hoppa og dansa fyrir Drottni, fyrirleit hún hann í hjarta sínu. […] En er Davíð kom heim til þess að heilsa fólki sínu, gekk Míkal, dóttir Sáls, á móti honum og mælti: „Tígulegur var Ísraelskonungurinn í dag, þar sem hann beraði sig í dag í augsýn ambátta þjóna sinna, eins og þegar einhver af argasta skrílnum berar sig“ Þá sagði Davíð við Míkal: „Fyrir Drottni vil ég dansa. Hann hefir tekið mig fram yfir föður þinn og fram yfir allt hans hús og skipað mig höfðingja yfir lýð Drottins, yfir Ísrael, og fyrir Drottni vil ég leika og lítillækka mig enn meir en þetta og líta smáum augum á sjálfan mig. En með ambáttunum, sem þú talaðir um, hjá þeim mun ég verða vegsamlegur.“*
„Fyrir Drottni vil ég dansa.“ Vel mælt! Ég er til í að lítillækka mig bara töluvert frammi fyrir Guði. Þetta viðhorf Davíðs til Drottins einkennir þeirra samband og er kannski fallegasti þráðurinn í þessari annars blóðidrifnu og ofbeldisfullu sögu. Og pönsið í sögunni af tepruhætti Míkal er óborganlegt:
Míkal, dóttir Sáls, var barnlaus til dauðadags.
Semsagt: Ef þegnar mínir mega ekki sjá á mér fermingarbróðurinn þá færð þú það ekki heldur, vina.
Næst þegar Davíð fær „uppreisn í buxnaskálm“ eins og Helgi Hálfdanarson kallar það, kveður við annan tón, enda gengur Davíð þá skrefinu lengra í ósvífninni.
Talandi samt um samband Davíðs og Guðs. Það er áhugaverður þráður í bókinni. Guð talar vissulega við Davíð beint, en líka í gegnum milliliði. Fremstur í þeim flokki er spámaðurinn Natan, sem hefur formlega stöðu sem slíkur. Ég held að þetta sé í fyrsta sinn sem talsmaður guðs er orðinn „stofnanavæddur“.
Bókinni lýkur svo með mjög forvitnilegum vinkli á afstöðuna milli Guðs og manns.
Reiði Drottins upptendraðist enn gegn Ísrael. Egndi hann þá Davíð upp í móti þeim með því að segja: „Far þú og tel Ísrael og Júda.“ Þá sagði konungur við Jóab og hershöfðingjana, sem með honum voru: „Farið um allar ættkvíslir Ísraels frá Dan til Beerseba og teljið fólkið, til þess að ég fái að vita, hve margt fólkið er.“ [...] En samviskan sló Davíð, er hann hafði látið telja fólkið. Þá sagði Davíð við Drottin: „Mjög hefi ég syndgað með því, sem ég hefi gjört. En Drottinn, tak nú burt misgjörð þjóns þíns, því að mjög óviturlega hefir mér til tekist.“
Skýrt þannig neðanmáls að það að telja vopnfæra menn sé móðgun við Drottinn, þar sem hans er sigurheiðurinn.
Refsingin er drepsótt.
Sumsé: Guð segir Davíð að telja þegnana. Það að telja þegnana er synd. Og þegnunum er refsað þegar Davíð syndgar á þennan hátt.
Vafalaust eru til önnur orð en „ógeðslegt“ yfir þetta framferði Drottins, ég bara kem þeim ekki í fljótu bragði fyrir mig. Minni menn en Guð hefðu haldið þessu til streitu, en:
... er engillinn rétti út hönd sína gegn Jerúsalem til þess að eyða hana, þá iðraði Drottin hins illa, og hann sagði við engilinn, sem eyddi fólkinu: „Nóg er að gjört!“
Batnandi Guði er best að lifa. Honum er ekkert ómögulegt, ekki einu sinni að iðrast.
En nú erum við komin fram úr okkur og upp úr brókinni þar sem drifkraftur þessarar sögu á heima.
Við vorum stödd í höll Davíðs og horfðum með honum (og Leonard Cohen reyndar líka) á hina undurfögru Batsebu baða sig. Og ef maður er kóngur þá getur maður fjandakornið fengið það sem maður vill. Gift, smift.
Eru það ekki bellibrögðin sem sjokkera Guð? það hvernig Davíð plottar dauða Úría, eiginmanns Batsebu, með hershöfðingjum sínum? Hroðaleg hermdarverk hafa ekki stuðað hann neitt. En hér ofbýður Drottni. Kannski er það samt greddan sem hneykslar.
Allavega: Frumburður Davíðs og Batsebu verður að deyja og ættinni boðað að hún muni ekki þífast í friði. Sem skýrir að einhverju leyti yfirveguð viðbrögð Davíðs við næstu óáran.
Sú er klárlega hryllingur. Amnon Davíðsson narrar til sín Tamar systur sína, með smá hjálp frá föður sínum, og nauðgar henni. Ekki nenni ég að greiða úr ættflækjunum og kveða upp úr um hversu nákvæmlega þau voru skyld - sennilega hálfsystkin. En nauðgun var það. Og Absalon bróðir þeirra beggja tekur þetta óstinnt upp, drepur Amnon og flýr konungsríkið. Snýr svo aftur og virðist sættast við föður sinn. En ákveður svo að gera uppreisn gegn honum. Viðbrögð hins vígreifa Davíðs við uppreisn Absalons eru áhugaverð af því þau eru svo óvænt.
Nú komu menn til Davíðs og sögðu honum: „Hugur Ísraelsmanna hefir snúist til Absalons.“ Þá sagði Davíð við alla þjóna sína, þá er með honum voru í Jerúsalem: „Af stað! Vér skulum flýja, því að öðrum kosti munum vér ekki komast undan Absalon. Hraðið yður, svo að hann komi ekki skyndilega og nái oss, færi oss ógæfu að höndum og taki borgina herskildi.“
Gamli stríðsgarpurinn, með sína nafntoguðu þrjátíu kappa í fullu fjöri, ákveður að flýja. Allskonar smáatvik skreyta frásögnina af undanhaldi Davíðs, sem meira og minna sýna að flóttinn byggir á trausti á Guði. „Úr því sonur minn sækir að mér“ virðist Davíð hugsa, „hlýt ég að hafa misboðið Drottni“.
Smám saman vex honum þó kjarkur á ný og með aðstoð kænlega samansetts njósnanets tekst honum að sigra lið Absalons. Uppreisnarseggurinn fellur reyndar í bardaganum á skrautlegan hátt (hangandi á höfðinu uppi i tré eftir að hafa skorðast milli tveggja greina) og Davíð syrgir þrátt fyrir allt þennan gallaða son sinn, þangað til honum er bent á að hann skuldi nú eiginlega liðsmönnum sínum og þegnum að fara ekki á stóran bömmer yfir sigrinum.
Og enn koma kvennamál við sögu. Þegar Davíð flýr Jerúsalem skilur hann hús sitt eftir í umsjá tíu hjákvenna sinna. Þegar hann snýr aftur bíða þeirra þessi örlög:
Þegar Davíð kom til hallar sinnar í Jerúsalem, lét konungur taka hjákonurnar tíu, er hann hafði skilið eftir til þess að gæta hallarinnar, og setti þær í varðhald og ól þar önn fyrir þeim, en eigi hafði hann samfarir við þær. Lifðu þær þannig innibyrgðar til dauðadags sem ekkjur lifandi manna.
Mann langar að spyrja eins og hver annar Rassálfur: „Akkuru gerir hann þetta?“ Eina svarið sem ég finn í fljótu bragði er: Það er mjög erfitt að vera bæði heillandi manneskja og heillandi sögupersóna. Davíð er heillandi sögupersóna.
Þetta er svakaleg bók með mörgum og stórum atburðum, mun skýrari og skipulagðari en fyrri Samúelsbók. Ég ákvað að rekja hana eftir girndarþræðinum sem liggur í gegnum hana, en aðrar leiðir eru að sjálfsögðu færar.
Lokaþáttur framvindunnar er svo önnur uppreisn, sem fljótlega er bæld niður, en minnir á að klofningur ríkisins er hafinn, og endanlegur klofningur yfirvofandi.
Meira um það í næsta þætti.
* Þetta furðulega orðalag, „vegsamlegur“ er góðu heilli orðið skikkanlegt í nýju þýðingunni: „...en meðal ambáttanna, sem þú nefndir, er ég mikils metinn.“ Eftir að ég rakst á þetta þá íhugaði ég að nota framvegis nýju þýðinguna, en féll svo frá því, aðallega vegna þess að hún er ekki stafrænt aðgengileg. Hvorki á textaformi, sem myndi þýða að ég þyrfti að slá inn hverja einustu tilvitnun, né á lestölvuformi, sem myndi skapa kjánalegt ósamræmi milli þeirra bóka sem ég mun lesa á Kindli og hinna sem ég les á prenti.Ég mun því halda mig við síðustu þýðingu, en tékka á því sem ég hnýt um, hvort því hefur verið breytt í þeirri nýju.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli