2.14.2010

Fyrri Samúelsbók

Textinn
Samanburður
Kynning


Kóng viljum vér hafa

Hér er sögð mikil saga af leiftrandi snilld – með smá continuity-veseni þó. Næstum of efnismikil og viðburðarík fyrir svona bloggumfjöllun. Allir höfuðkarakterarnir áhugaverðir: Samúel, Sál, Davíð og svo auðvitað Guð. Hér birtast bæði straumhvörf í lífi heillar þjóðar og mannlegir harmleikir eins og hver vill. Og náttúrulega einn af frægustu hápunktum bókarinnar; einvígi Davíðs og Golíats. Hef nú raunar ekkert áhugavert að segja um það. Nema náttúrulega: vel gert Davíð!

Bókin byrjar á einum umgangi af "dómarabókarmódelinu" en Samúel er ekki fyrr kominn til valda sem dómari en sagan tekur nýja stefnu. Gyðingar nefnilega ákveða eftir harmkvæli undanfarinna alda að nú kominn tími á kóng. Það gerist eftir ansi hreint dramatíska atburði þar sem Fílistum tekst að stela sjálfri sáttmálsörkinni. Það fer reyndar ekki mikið betur en í Indiana Jones svo heiðingjarnir verða því fegnastir að losna við hana aftur.

Engu að síður þykir "okkar mönnum" rétt að fá veraldlegra yfirvald. Þegar synir Samúels reynast drullusokkar vill lýðurinn alvöru leiðtoga – konung – eins og aðrar þjóðir hafa. Gyðingar treysta sér ekki lengur til að standa við sáttmálann við Guð án þess að hafi varanlegt og öflugt framkvæmdavald á sínum snærum.

Þar með verða þáttaskil í samskiptum Guðs við sitt fólk. Eftir langt tímabil þar sem lög Guðs og ást lýðsins á honum dugði (eða átti að duga) til að halda samfélaginu saman þá gefast Gyðingar upp. Þeir játa vanmátt sinn eins og hverjir aðrir fíklar, og biðja um nærstaddara yfirvald.

Afstaða Guðs til þessarar hugmyndar er athyglisverð. Það er eins og hann sjái sér ekki fært að tukta lýðinn ofan af henni, en er engu að síður sármóðgaður og auk þess efins um að þetta verði til góðs. Veit enda lengra nefi sínu.

Drottinn sagði við Samúel: "Lát þú að orðum lýðsins í öllu því, sem þeir biðja þig um, því að þeir hafa ekki hafnað þér, heldur hafa þeir hafnað mér, að ég skuli ekki lengur vera konungur yfir þeim. Svona hafa þeir ávallt breytt frá þeim degi, er ég leiddi þá út af Egyptalandi, allt fram á þennan dag. Þeir hafa yfirgefið mig og þjónað öðrum guðum. Öldungis á sama hátt fara þeir nú og með þig. Lát því nú að orðum þeirra. Þó skalt þú vara þá alvarlega við, og segja þeim háttu konungsins, sem ríkja á yfir þeim."

Aðvaranir Samúels eru enda nokkuð magnaðar.

Þá sagði Samúel lýðnum, sem heimti af honum konung, öll orð Drottins og mælti: "Þessi mun verða háttur konungsins, sem yfir yður á að ríkja: Sonu yðar mun hann taka og setja þá við vagn sinn og á hesta sína, og þeir munu hlaupa fyrir vagni hans, og hann mun skipa þá höfuðsmenn yfir þúsund og höfuðsmenn yfir fimmtíu, og setja þá til að plægja akurland sitt og skera upp korn sitt og gjöra hernaðartygi sín og ökutygi. Og dætur yðar mun hann taka og láta þær búa til smyrsl, elda og baka. Og bestu lendur yðar, víngarða og olífugarða mun hann taka og gefa þjónum sínum, og af sáðlöndum yðar og víngörðum mun hann taka tíund og gefa hana geldingum sínum og þjónum sínum. Og þræla yðar og ambáttir og hina bestu uxa yðar og asna yðar mun hann taka og hafa til sinna verka. Af sauðfénaði yðar mun hann taka tíund, en sjálfir munuð þér verða þrælar hans. Þá munuð þér hrópa undan konungi yðar, er þér þá hafið kjörið yður, en þá mun Drottinn ekki svara yður."

Sumsé: Konungar eru gráðugir og ekki halda að þið getið hlaupið til pabba og klagað.

Þó svo að Guð sé frekar fúll útaf konungsblæti ísraela þá eru þetta hans menn, svo hann velur þeim kandidat. Sál heitir hann og er skemmtilega kynntur til sögunnar:
Maður er nefndur Kís. Hann var úr Benjamín og var sonur Abíels, Serórssonar, Bekóratssonar, Afíasonar, sonar Benjamíníta nokkurs, auðugur maður. Hann átti son, er Sál hét, fyrirmannlegan og fríðan. Enginn af Ísraelsmönnum var fríðari en hann. Hann var höfði hærri en allur lýður.

"Sonar Benjamíníta nokkurs". Heldur fátæklegur uppruni fyrir einn kóng. Þetta er sumsé maðurinn sem Guð velur til starfans. Himnalengjan ættlausa, Sál Kísson. Það gengur nokkuð brösulega að fá hann til að taka djobbið, og þegar Samúel leitar hans með hlutkesti á ættarmóti ísraela verður fjarvera hans tilefni einhverrar tilkomuminnstu tilvitnunar í Alföður sem um getur:
Sjá, hann hefur falið sig hjá farangrinum

Sagði Guð við Samúel. Mórallinn: ef fara á í feluleik - muna að hafa Guð með sér í liði.

Og þarmeð er krúnan Sáls. Engu að síður þarf frækinn hernaðarsigur  til að Ísraelar kaupi kónginn. Góðu heilli vinnur hann sigur yfir Ammónítum og "felldu þeir Ammóníta fram til hádegis". Eftir það er hann næsta óumdeildur. Þar til hann sjokkerar Guð með því að fórna brennifórn í fjarveru Samúels. Eftir það fer að halla undan fæti hjá Sál. Hann heldur áfram að klúðra, og nú með týpísku ævintýraklunni þegar hann lofar að refsa hverjum þeim sem borðar í miðri orrustu og sonur hans Jónatan þarf að sjálfsögðu að fá sér smá hunang. Lýðurinn biður honum griða, og fær. Og svo bítur Sál höfuðið af skömminni með því að láta lið sitt hirða sauði úr búi Amalekíta í stað þess að eyða þeim eins og Guð vill frekar. Þetta veit ekki á gott – enda fer þetta ekki vel.

Sál er einhver forvitnilegasti og flóknasti karakter sem hingaðtil hefur birst í Biblíunni. Tregur til metorða, sigursæll í byrjun, en svo fer allt til ... ja, andskotans. Það er nokkuð ljóst að Guð var ekki með honum í liði af neinum heilindum, og nú sendir hann honum illa anda til að gera honum lífið leitti. Og finnur annan krónprins.

Sauðamanninum Davíð af ætt Benjamíns er lýst sem "rauðleitum, fagureygum og vel vöxnum". Guð vísar Samúel á Davíð og dómarinn gamli smyr þann rauða.

Guð er ágætur í að gefa sér tvö tækifæri. Hann skapaði Adam og Evu, en þegar afkomendur þeirra urðu fullmikið hyski valdi hann einn góðan, Nóa, og eyddi hinum – hreinsaði borðið. Þessi saga kallast á við hana. Guð velur Sál, hann stendur sig ekki, svo Guð velur annan. Vissulega með stórlega minni dramatík. Enda styrkist ég stöðugt í þeirri kenningu að Biblían sé umfram allt þroskasaga Guðs. Það er til dæmis áhugavert að lesa þetta í lok 15. kafla:
Og Drottinn iðraði þess að hann hafði gjört Sál konung yfir Ísrael

Það er alltaf gaman þegar Guði er lýst svona mannlega. Finnst mér allavega.

Ekki verður neitt skýrt valdaafsal þrátt fyrir að nýr konungur hafi verið smurður og Guð sjái eftir öllusaman. Auk þess eru næstu kaflar eftir að Davíð er smurður augljóslega í einhverju rugli. í þeim sextánda er Davíð orðinn hirðmaður Sáls og hörpuleikur hans það eina sem getur sefað geð konungsins þegar illi andinn hrellir hann. En í næsta kafla, þegar Davíð hefur fellt Golíat og unnið þannig sigur á Filistum, þekkir Sál hann ekki.

En vinsældir Davíðs vaxa og það gerir ekki neitt fyrir sálarástand Sáls. Börn hans eru á bandi Davíðs, Jónatan gerist fóstbróðir hans og eftir talsvert streð tekst Davíð og Míkal Sálsdóttur að giftast. Brúðargjaldið: hundrað forhúðir af Filistum (maður heyrir næstum Sál hrópa upp yfir sig "einmitt það sem mig hefur alltaf langað í!"). Því meiri afrek sem Davíð vinnur, því meira hatur leggur Sál á hann. Af því eru margar og miklar sögur.

Davíð þarf fljótlega að flýja í útlegð. Kóngsbörnin hjálpa honum að komast undan flugumönnum konungs. Kona Davíðs gengur svo langt að búa til eftirlíkingu af honum sofandi í rúmi þeirra til að villa um fyrir morðsveitunum:
Síðan tók Míkal húsgoðið og lagði í rúmið, og hún lagði blæju úr geitahári yfir höfðalagið og breiddi ábreiðu yfir

Húsgoðið!???

What the fuck?

Var svoleiðis ekki örugglega bannað? Hér birtist e-k guðalíkneski eins og ekkert sé sjálfsagðara. Og bragðið heppnast, svo ekki hefur Guð ákveðið að refsa fyrir þessa yfirsjón (þó hann tryllist ef honum eru færðir fórnarsauðir úr eigu óumskorinna manna).

Davíð er í felum og Sál leitar hans. Davíð endar reyndar á því að leita á náði erkióvinananna, Filistea. Í tvígang nær hann að komast inn í herbúðir Sáls og standa yfir honum sofandi. Í bæði skiptin afræður Davíð að þyrma honum, enda Sál smurður konungur þrátt fyrir allt. Og í bæði skiptin iðrast Sál aðgerða sinna og lofar Davíð griðum og heiðri. Og í hvorugt skiptið sér Davíð nokkra ástæðu til að trúa þessum truflaða konungi.

Bókinni lýkur á dauða Sáls - hann fellur fyrir eigin hendi umkringdur Filistaher í tapaðri orrustu. Guð er hættur að tala við hann og er ekki lengur með honum. Tími Davíðs er kominn.

Samúelsbók hin fyrri er fyrst og fremst atburðafrásögn, meira og minna brútal, full með stríðum og ofbeldi. Viðburðarík og spennandi sem slík. Persónurnar margar nokkuð lítilsigldar, sem er alltaf kostur. Hvaða trúarlega lærdóma skyldi eiga að draga af þessu öllu (þetta er jú trúarrit tveggja megintrúarbragða)? Kannski einna helst þá hvernig Guð kýs að blanda sér – eða ekki – í málefni mannanna. Hann dregur sig svolítið í hlé, mögulega svolítið sár út af konungamálinu, kannski ögn þreyttur á að stjórna sjálfur. Mögulega líka innst inni feginn að vera búinn að fá svona millistjórnanda. Og óhress með hvað hann er stundum glámskyggn á fólk sem hann velur að treysta. Sjáum hvað setur.

Engin ummæli: