Textinn
Samanburður
Kynning
Kölski er kominn á svæðið
Það má alveg halda því fram að Króníkubók hin fyrri segi söguna frá sköpun mannsins fram að dauða Davíðs. Það er ef maður telur ættartölurnar ógurlegu með, en þær hefjast á sjálfum Adam.
Réttara er þó að segja að hún reki sögu Davíðs frá dauða Sáls, og spanni þar með efni síðari Samúelsbókar með smábútum af lokum þeirrar fyrri og upphafi fyrri Konungabókar.
Það er töluvert annar blær yfir þessum texta. Hann er mun „guðrækilegri“ en í Samúelsbókum, sem var meira eins og „hardkor“ sagnfræði. Hér fer líka minna fyrir áhugaverðum og skemmtilegum smásögum - og þess gætt að ekki falli á hetjurnar. Eða hetjuna, því hér er verið að mæra Davíð af miklum móð öðrum fremur.
Það kemur óneitanlega niður á skemmtigildinu - og það sama má segja um áráttukennda unun höfundar af upptalningum og listum hverskonar.
Aðallega er hann þó meiri pempía en þeir höfundar sem hann fetar í fótspor hjá.
Eitt dæmi til að byrja með. Í ættartöluromsunni tekur hann eftirfarandi formúlu beint úr 1. Mósebók:
En Ger, frumgetinn sonur Júda, var vondur fyrir augliti Drottins, svo að Drottinn lét hann deyja. (1Kro 2. 3)
En heldur ekki áfram með söguna, hvernig Ónan bróðir Gers bregst mágsskyldum sínum við ekkjuna og kemur því óorði (og nafni sínu) á runkið sem enn stendur.
Ekki nenni ég að tékka af allar lýsingar á afrekum Davíðs í stríði við nágrannana við sambærilega staði í fyrri bókum. Læt nægja að fara yfir fimm atriði sem stinga strax í augun:
I
Hlutur Davíðs í að undirbúa byggingu musterisins er gerður mun stærri en í Samúel. Hér skilar Davíð hreinlega inn teikningum af öllu, smáu og stóru, og hefði hellt sér í að binda járn og skafa timbur í grunninum ef Guð hefði ekki tekið skýrt fram að hann vildi að Salómon byggði húsið.
II
Talandi um Salómon. Hann er samkvæmt Samúelsbók sonur Batsebu Elíamsdóttur, sem Davíð náði undan kappanum Úría með svívirðilegu ráðabruggi. Um þá ljótu sögu er ekki stafkrókur í Króníkunni, og ekki nóg með það: Salómon er sagður sonur annarrar konu: Batsúu Ammíelsdóttur. Hér er sko alvöru söguendurskoðun í gangi!
III
Kynlíf Davíðs er sorglega fjarverandi í þessari ævisögu, eftir að hafa verið rauði þráðurinn í þeirri fyrri. Hin magnaða frásögn af strípilátum hans í skrúðgöngunni með sáttmálsörkina inn í Jerúsalem, hneykslun Míkal, eiginkonu hans, og skírlífsstraffið sem hún hefur upp úr krafsinu, er hér orðið að:
En er sáttmálsörk Drottins kom í Davíðsborg, leit Míkal, dóttir Sáls, út um gluggann. Og er hún sá Davíð konung vera að hoppa og dansa, fyrirleit hún hann í hjarta sínu. (1Kro 15. 29)
Og búið.
IV
Að þessum siðprýðisúrfellingum frátöldum er eftirfarandi athyglisverðasta frávikið:
Seint á valdatíma Davíðs blossar upp drepsótt í ríkinu. Ástæðan er reiði Guðs yfir því að Davíð ákveður að láta fara fram manntal - sem er víst voðalegt tabú.
Í Samúelsbók er innangur þeirrar sögu svona:
Reiði Drottins upptendraðist enn gegn Ísrael. Egndi hann þá Davíð upp í móti þeim með því að segja: “Far þú og tel Ísrael og Júda.” (2Sam 24. 1)En í þessari er hún orðin svona:
Satan hófst í gegn Ísrael og egndi Davíð til þess að telja Ísrael. (1Kro 21. 1)Þetta er í fyrsta sinn í Biblíunni sem þessi höfuðpaur kristninnar er nefndur á nafn. Það er vitaskuld áhugavert að hann sé hér að vinna verk sem Guð sjálfur tók að sér í fyrri útgáfunni, að egna, freista.
Þetta er óneitanlega lógískara svona. Guð kom ekkert sérlega vel út í fyrri gerðinni - hann skipar Davíð að telja lýðinn og dæmir síðan drepsótt á þegnana þegar Davíð hlýðir honum.
Hér er þó allavega búið að útvista skítverkunum.
Merkileg annars þessi bannhelgi á manntali. Sú skýring er gefin neðanmáls í Samúelsbók að manntal geri lítið úr Guði, honum einum sé heiðurinn af sigri í orrustum og því diss á hann að telja hermenn. Gott og vel, en tölulegar upplýsingar um fjölda hermanna eru út um allt í Biblíunni og t.a.m. plássfrekar í þessari tilteknu bók. Það virðist ekki trufla guðfræðingana sem skrifuðu skýringuna.
Og að lokum:
V
Áður en Salómon tekur völdin reynir þriðji sonurinn Absalon að ræna völdum. Ekki í þessari bók samt. Allt gengur friðsamlega fram - Salómon tekur við völdum af Davíð föður sinum, sem deyr svo kyrrlátlega, þess fullviss að allt fari á besta veg.
Fyrri Krónikubók er höfðingjaholl bók. Það er skautað yfir persónuleikabresti Davíðs og Satan tekur við freistarahlutverkinu af Guði. Þeir félagar koma betur út í þessari útgáfu sögunnar, en hin er óneitanlega bragðmeiri, efnisríkari og frumlegri.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli