5.24.2013

Síðari króníkubók


Allt var nú betra í Davíðs tíð

Textinn
Samanburður
Kynning

Síðari Króníkubók fer rösklega yfir sama efni og Konungabækurnar tvær, rekur sögu Ísraels frá valdatöku Salómons til herleiðingar Babýlóníumanna. Eftir klofning ríkisins er fókusinn allur á Suðurríkinu - Júda. Norðurríkið fær eingöngu athygli að svo miklu leyti sem það hefur áhrif fyrir sunnan. Ef sagt er frá örlögum þeirra og flutningi austur á bóginn á vegum Assýríumanna þá var það nógu snubbótt til að fara framhjá mér.

Eins og ég sagði um fyrri Króníkuna þá felst skýrasti munurinn á henni og fyrri frásögnum um sama efni hvað hlutur Davíðs er fegraður og stækkaður. Þessi tilhneyging heldur áfram hér, því þó Davíð hafi dáið í þeirri fyrri er hann síður en svo horfinn úr vitund höfundar. Stöðugt er minnt á velþóknun Guðs á honum og eftirkomendur bornir saman við hann þeim í óhag. Þá er Jerúsalem iðulega kölluð „Davíðsborg“, sem í fyrri ritum var einungis notað í formúlukenndum setningum um greftrun konunga.

Lengst gengur þessi Davíðsdýrkun þegar hörpur eru allt í einu hættar að heita hörpur og farnar að heita „hljóðfæri Davíðs“ (29.26). Við gítaristar ættum kannski að fara að kalla gígjurnar okkar „hljóðfæri Jimis“? Kannski ekki. Og kannski var Davíð ekki örvhentur. Það gæti þó skýrt hvað hann kom Golíat á óvart.

Í sögu Salómons er einkum dvalið við musterisbygginguna og ríkidæmi konungsins, engin saga um uppdeilingu á börnum eða aðrir vitnisburðir um visku hans, né heldur minnst á að Guð hafi fengið ímugust á honum fyrir að temja sér siði heiðinna eiginkvenna sinna.

Eins og fyrri höfundum er þessum umhugað um að tíunda nákvæmlega helstu stærðir í tengslum við musterið. Þessi mælingarárátta sést líka í fyrri bókum Biblíunnar, ekki síst í þriðju Mósebók (minnir mig) þar sem tjaldinu sem er forveri musteris Salómons er lýst af álíka smásmygli. Höfundur þessara lýsinga er svolítið eins og Þórbergur Þórðarson að frádreginni ritsnilldinni. Ekki gott.

Ég var að hugsa um að leggjast í nákvæman samanburð á málsetningunni hér og í fyrri frásögn, fann reyndar einhver misræmi í fljótheitum, en svo ákvað ég að lífið væri hreinlega of stutt. Það er heldur ekki eins og musterið standi þegar sögunni líkur.

Látum þetta duga sem dæmi um nákvæmnina:


En í Hinu allrahelgasta gjörði hann tvo kerúba, haglega skorna og lagði þá gulli. Vængir kerúbanna voru báðir saman tíu álna langir. Annar vængur annars kerúbsins, fimm álna langur, nam húsvegginn, en hinn vængurinn, er og var fimm álnir á lengd, nam við væng hins kerúbsins. Annar fimm álna langur vængur hins kerúbsins nam og húsvegginn, en hinn vængurinn, er og var fimm álnir á lengd, snart væng hins kerúbsins. Voru vængir kerúba þessara tuttugu álnir, útbreiddir. (2Kro 3. 10–13)

Þá vitum við það. Fjorum sinnum fimm eru tuttugu.

Ef ég velti fyrir mér þessum lýsingum kemur til mín hugsunin um hve lítið ríki og fátæk þjóð Ísraelsmenn eru. þessi tilfinning magnast við að lesa lýsingarnar á áhöldunum í musterinu, sem eru tilgreind í smáatriðum; kertastjakar og skarbítar, skálar og amboð af öllu tagi, gjarnan með ákveðnum greini – bara eitt eintak til. Það er pláss fyrir svoleiðis upptalningar í þessari viðburðaríku konungasögu með öllum sínum fólkorustum og glímu við sjálfan Guð.

Þetta vitnar auðvitað líka um þá miklu helgi sem hvílir á musterinu, en hitt skiptir líka miklu máli. Þetta er pínulítil þjóð, og á þessum tíma umlukin stórveldum. Þó mikið pláss fari í að lýsa fræknum sigrum á ofurefli nágrannaþjóðanna þá eru það einatt þeir viðráðanlegri af grönnunum sem verða fyrir barðinu á Guði og hans uppáhaldsmönnum.

Þetta hlýtur að valda Ísraelum hugarangri. Hér er hin útvalda þjóð með hinn eina raunverulega og almáttuga Guð í sínu liði - en samt eru það ekki þeir heldur Egyptar, Assiríumenn og síðar Kaldear sem eru stórveldin. Hvernig getur staðið á því?

Kannski ekki furða þó þeir freistist til að setja ekki öll eggin í sömu trúarkörfuna. Því það gera þeir reglulega og hafa gert allt frá því þeir steyptu sér gullkálfinn í eyðimörkinni um árið.

Það er enda áberandi tilvistarlegt tvísæi á guðdóminn í þessum frásögnum öllum. Stundum er það morgunljóst að það er einungis einn guð, stundum er jafn skýrt að guðir annarra eru líka til, bara ekki eins frábærir (og að því er virðist ekki eins afbrýðisamir).

Að Salómon gengnum klofnar ríkið. Frásögnin af því er nokkurnvegin samhljóða þeirri í Konungabók – boðuð harðýðgi Reheabeams hrekur Norðanmenn í fang Jeróbóams.

Við tekur hersing Júdakonunga sem ýmist eru góðir í augum drottins eða hallir undir Baala, Asörtur og fórnarhæðir. Þeir berjast við nágranna sína, jafnvel við frændur sína í norðrinu, og hafa ýmsir betur. Ekki ætla ég að fara að bera saman helstu stærðir og staðreyndir um þetta milli bóka. Lífið stutt og svona.

Spámenn bera skilaboð að ofan – en þó sætir það nokkurri furðu að hinir fyrirferðamiklu Elía og Elísa eru fjarverandi. Á Elía er einu sinni minnst og hinn einstaki atburður þegar hann er uppnuminn hefur króníkeranum ekki þótt frásagnarverður. Elísa kemur ekki við sögu hér.

Athygli vekur hins vegar að hér fara nýir menn að birtast: svokallaðir Arabar. Orðið kemur fyrir sem örnefni í Jósúabók og einu sinni sem þjóðarheiti í fyrri Konungabók, en hér dúkkar það nokkrum sinnum upp innan um aðrar heiðingjaþjóðir í nágrenninu sem þarf að sigra og þrælka.

Allt þetta stríð og bras og óvild hins langþreytta Guðs vegna stöðugs framhjáhalds tekur auðvitað sinn toll. Síðari hluti bókarinnar lýsir ágætlega hvernig fjarar undan Júda. Hér er lítil saga sem sýnir hve illa er komið fyrir ríkinu þegar einn af síðustu umbótakonungunum, Hiskía, efnir til fórna:

En talan á brennifórnunum, er söfnuðurinn færði, var: sjötíu naut, hundrað hrútar og tvö hundruð lömb. Var allt þetta ætlað til brennifórnar Drottni til handa. Og þakkarfórnirnar voru sex hundruð naut og þrjú þúsund sauðir. En prestarnir voru of fáir, svo að þeir gátu ekki flegið öll brennifórnardýrin. Hjálpuðu þá frændur þeirra, levítarnir, þeim, uns starfinu var lokið … Þannig var þjónustunni við musteri Drottins komið í lag. (2Kro 29. 32–35)

Þess má geta að við vígslu musterisins voru skorinn 20.000 naut og 120.000 sauðir og fer engum sögum af því að það hafi gengið illa að manna þá sláturtíð.

Aftur kemur hér þessi stórkostlega og stórfurðulega frásögn af lögbókinni sem finnst við tiltekt í musterinu á dögum Jósía. Mér er sem fyrr óskiljanlegt af hverju þessi frásögn er ekki miðlæg í skilningi okkar á þessum tíma, hvers vegna þetta ótrúlega dramatíska atvik hefur ekki orðið yrkisefni skálda og listamanna. Mér finnst þetta allavega magnað, og að hinn pempíulegi höfundur Króníkubókanna haldi þessu til haga segir mér að svona var þetta. Komið, guðfræðingar, og skýrið þetta burt ef þið getið!

Og fyrst þið eruð þarna: Eitt sem mér þykir frekar ámælisvert í fari Guðs í þessum sögum er tilhneyging hans til að refsa saklausum. Hvað eftir annað er afkomendum konunga hegnt fyrir yfirsjónir feðra sinna ef feðurnir hafa skælt nógu hátt. Samt er sérstaklega tekið fram, bæði hér og í Konungabókunum að lögmálið banni svoleiðis, með tilvísun í hina týndu Mósebók. Eins virðist nokkuð sjálfsagt að láta syndir konunga koma niður á þegnunum. Langar einhvern að réttlæta þetta?

Með síðari Króníkubók lýkur áfanga í Biblíusögunni. Frá því Móse stóð við bakka Jórdan í 5. mósebók að þessari hafa liðið aldir. Smáþjóð hefur lagt undir sig land sem þeim hefur verið lofað, hún hefur svikið sinn hluta samningsins trekk oní hvað. Guð hefur verið mildur og refsigjarn á víxl. Það er kannski hluti vandans. Þjóðin hefur klofnað og nú þarf hún að fara. Áður var hún þrælkuð í vestri á vegum Faraós, nú heldur hún austur í boði Babýlons. Frá því iðnaðarmenn fundu Lögmálið í skúmaskotum musterisins á dögum Jósía þar til Kaldear brenna það og rústa líða u.þ.b. 23 ár.

Í þeim heimi sem lýst er í þessum bókum frá Jósúa til seinni Króníkubókar ber mest á illvirkjum, drápum, stríði og miskunnarleysi. Margt er hér okkur ansi framandi.  Það er pínu magnað að þessi saga sé hluti af því sem fólk á að sækja visku til ef það vill verða „sálusorgarar“. Ég fæ ekki betur séð en að t.d. Stephen King myndi gera sama gagn.

Allavega finnst mér, eftir að hafa fylgt Jakobsniðjum frá Egyptalandi að botni Miðjarðarhafs og þar sem ég horfi nú á eftir þeim í austurátt, að lærdómar þessara sagna séu meira lesnir í þær en úr.

Í stuttorðum eftirmála fréttum við reyndar að þeir fá á endanum heimfararleyfi. Þetta er ekki búið.

Engin ummæli: