Textinn
Samanburður
Kynning
The plot thickens!
Núna eru Ísraelsmenn þrælar í Egiftalandi. Og svo fæðist Móse. Og Guð felur honum að frelsa lýðinn. Og honum finnst hann ekki vera nógu flinkur PR maður. Og Guð gefur honum leyfi til að hafa Aron bróður sinn með. Og þeir vaða í Faraó og heimta frelsi. Og Faraó eykur bara okið. Og Guð gengur í málið.
Eitt það athyglisverðasta í Exodus eru galdrakallar Faraós. Þeir eru svolítið eins og þessir nútímagaurar sem rembast við að afhjúpa miðla og hugsanalesara og stjörnuspekinga og svoleiðis fólk. Móse mætir með nýjasta trikkið frá Guði og spámenn Faraós gera eins. Stafur breytist í snák. Vatn breystist í blóð. Froskar. Móse galdrar í umboði Guðs og töframenn Faraós gera eins.
Og Faraó hlær og hristir hausinn yfir Ísraelsmönnum og Guðinum þeirra sem er engu máttugri en hans eigin töframenn.
En svo kemur mývargsplágan og spámennirnir ráða ekki við að leika það eftir. Eftir það er fjölkynngi Guðs óumdeild. Ísraelsmenn fá að fara og ræna slatta af gersemum í leiðinni, í boði guðs.
Og æða út í eyðimörkina.
Og út í Rauðahafið
Og Egiftar á eptir
og lengi tekur sjórinn við...
Hér eru kaflaskil. Núna eru það bara Ísraelsmenn og Guð um hríð. Og hann tekur til við að ala þá upp. Hann leggur Móse lífsreglurnar. Reglur um samskipti milli manna, reglur um viðurlög við allskyns afbrotum, og svo bannhelgisreglur og önnur fyrirmæli sem hafa engin tenxl við siðferði eða raunveruleikann yfirleitt.
Það er eitthvað skrítið við þessa texta. Það er eitthvað undarlegt við að Guð gefi ordrur um bannhelgi. Maður kann einhvernvegin betur við að hún byggist á sérvisku og ótta mannanna. Að þeir hafi fundið upp á henni sjálfir. Guð setur einhvernvegin niður við að vasast í því sjálfur að menn séu ekki að borða súrdeixbrauð í apríl eða sjóða kiðlinga í mjólk móður sinnar. Ef maður er almáttugur, hvað ætli manni væri ekki sama?
Hvað varðar bókina sjálfa þá er eitt svona "þú-hlýtur-að-vera-að-grínast-" móment. Eftir gríðarlangan kafla þar sem Guð leggur línurnar um byggingu musteristjaldsins, prestskrúðans og innanstokksmunanna allra, í talsvert meiri smáatriðum en manni finnst að sjálfsöruggur guð ætti að gera. Þá kemur annar kafli þar sem iðnaðarmenn Ísraels framfylgja þessum skipunum og það er tilgreint í nákvæmlega sömu smáatriðum! Orðrétt.
Svolítið eins og sögufrægt atriði úr útvarpsskemmtiþáttunum The Goon Show þar sem sagði "og hann barði á dyrnar hundrað sinnum". Og svo komu hundrað högg. Fyrst skrítið. Svo fyndið. Síðan absúrt. Að lokum leiðinlegt. Og tilgangslaust.
Að lokum smá um sjálfa og útleggingar hennar. Hvað er þetta með boðorðin tíu?
Í Biblíunni eru þau svona:
Guð talaði öll þessi orð og sagði:
1
Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.
2
Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér né nokkrar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eður því, sem er á jörðu niðri, eður því, sem er í vötnunum undir jörðinni. Þú skalt ekki tilbiðja þær og ekki dýrka þær, því að ég, Drottinn Guð þinn, er vandlátur Guð, sem vitja misgjörða feðranna á börnunum, já í þriðja og fjórða lið, þeirra sem mig hata, en auðsýni miskunn þúsundum, þeirra sem elska mig og varðveita boðorð mín.
3
Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma, því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt, sem leggur nafn hans við hégóma.
4
Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan. Sex daga skalt þú erfiða og vinna allt þitt verk, en sjöundi dagurinn er hvíldardagur helgaður Drottni Guði þínum. Þá skalt þú ekkert verk vinna og ekki sonur þinn eða dóttir þín, þræll þinn eða ambátt þín eða skepnur þínar, eða nokkur útlendingur, sem hjá þér er innan borgarhliða þinna, því að á sex dögum gjörði Drottinn himin og jörð, hafið og allt sem í þeim er, og hvíldist sjöunda daginn. Fyrir því blessaði Drottinn hvíldardaginn og helgaði hann.
5
Heiðra föður þinn og móður þína, svo að þú verðir langlífur í því landi, sem Drottinn Guð þinn gefur þér.
6
Þú skalt ekki morð fremja.
7
Þú skalt ekki drýgja hór.
8
Þú skalt ekki stela.
9
Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum.
10
Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, ekki þræl hans eða ambátt, ekki uxa hans eða asna, né nokkuð það, sem náungi þinn á.
Á vef íslensku þjóðkirkjunnar eru þau hinsvegar svona, og vitnað í sjálfan Lúther því til stuðnings;
1
Þú skalt eigi aðra guði hafa.
2
Þú skalt eigi leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma.
3
Halda skaltu hvíldardaginn heilagan.
4
Heiðra skaltu föður þinn og móður.
5
Þú skalt eigi mann deyða.
6
Þú skalt eigi drýgja hór.
7
Þú skalt eigi stela.
8
Þú skalt eigi bera ljúgvitni gegn náunga þínum.
9
Þú skalt eigi girnast hús náunga þíns.
10
Þú skalt eigi girnast konu náunga þíns, þjón, þernu, fénað né nokkuð það sem náungi þinn á.
Af hverju stafar munurinn? Af hverju vilja Lúthersmenn ekki boðorð um líkneskjur? Og þó svo þeir vilji þau ekki, hvað gefur þeim leyfi til að breyta orðum guðs efnislega?
Þó svo bókstafstrúarmenn séu frekar hjákátlegt fólk, þá verður grunnritið að vera nokkuð stöðugt, er það ekki? Eða eins og Jerry Springer myndi orða það:
I'm Confused...
19 ummæli:
Ég hélt alltaf að fyrsta boðorði í styttu útgáfunni væri; Ég er Drottinn Guð þinn, þú skalt ekki aðra guði hafa.
???
Æm konfjúsd ...er ...er ...!!!
Athyglisvert hvað Guð þarna virðist hefni- og hegningargjarn meðan Jesús boðaði fyrirgefninguna og kærleikann ofar öllu.
Ég er held ég sé líka nokkuð konfjúsuð.
Mér sýnist að ein leið til að losna við þann konfúsíus við lestur biblíunnar er að sjá hana sem þroskasögu Guðs.
Þetta með endurtekningarnar er dásamlegt. Það er ekki eins og þeir hafi haft ódýran skrifpappír á þessum tíma.
En að boðorðunum. Jú, það hefur lengi verið deilt um hvernig beri að skipta boðorðunum 10 upp og það flækir enn meira málið að þau eru að finna á fleiri stöðum, þ.e. Önnur Mósebók bæði í kafla 20 (vers 2-17) og 34 (vers 14-26) og svo í Fimmtu Mósebók 5:6-21. Það út af þessu sem mismunurinn stafar, sem og af ólíkum túlkunum og kennisetningum.
ég bendi fólki á að lesa grein sem sr. Bjarni Karlsson skrifaði í moggan í vor. t.d. góð útlegging á nýja og gamla lögmálinu etc.
finnið það í gagnasafninu.
Ójá
Frábært að hér sé mættur guðfræðingur til leiks! Ekki átti ég von á því og mun leitast við að láta það ekki fipa mig.
34. kafli, þar sem Móse fær nýjar sáttmálatöflur í stað hinna nýju, getur varla kallast útgáfa af boðorðunum tíu, svo algerlega frábrugðinn er hann upptalningunni í 20 kafla, sem við höfum vanist að kalla boðorðin 10.
Auðvitað eru fullt af öðrum reglum og fyrirskipunum sem koma víðar fram, og upptalningin í 34 á sér hliðstæður annarsstaðar í bókinni, allavega sumar reglurnar.
En kaflinn í 5. mósebók er aftur nánast samhljóða M3 20. Allavega er hér hvergi skýring á því uppátæki að sleppa því virðist klárlega vera 2. boðorðið (um líkneskin) en halda tölunni í 10 með því að kljúfa síðasta boðorðið í tvennt.
þannig horfir þetta allvega fyrir mér.
Þetta er alveg rétt hjá þér Varríus. Lúter túlkaði boðorðin að eigin geðþótta, rétt eins og kaþólskir gera, og sleppti 2. boðorðinu um líkneskin. Kalvínistar halda því hins vegar inni og láta "okkar" 9. og 10. boðorð vera eitt, rétt eins og í frumútgáfunni!
þetta með eftirmyndirnar..strangt til tekið er þá ekki hvers kyns myndlist bönnuð? ef ekki mé gera líkneski af nokkrum hlut í himni jafnt sem jörð? það er aðskilið frá því að ekki megi tilbiðja slík líkneski. sem auðvitað fer alveg með kaþólikkana og allar þeirra dýrlingamyndir og styttur, og lúterana með líkið á krossinum. fæ ekki betur séð en lög guðs séu þá brotin af áfergju í húsum honum tileinkuðum...
mér fannst nú myndin betri
Mér hefur alltaf þótt stórkostlega dularfull þessi skipting á girndarbanninu. Get hugsanlega fallist á að boðorðið um líkneski og notkunina á nafni guðsins geti verið í einum pakka en því fremur ætti girndarboðorðið að vera eitt.
Varríus, ég skil ekki hvers vegna þú segir að boðorðin í 34. kafla geti ekki kallast boðorðin tíu, því að þar eru boðorðin einmitt kölluð "boðorðin tíu"
2Mós 34:28...Og hann skrifaði á töflurnar orð sáttmálans, tíu boðorðin.
Þetta eru augljóslega hin einu sönnu boðorðin tíuTM!
Kommon, ha? Lesið Freud: Biblían er samtíningur sagna um mismunandi guði, Egyptaguð, eyðimerkurguð og fleiri. Móse var drepinn af ættbálki sínum og annar tók við, í Biblíunni er þeim steypt saman í einn Móse. Þegar þetta bókarskrifli er skoðað þá stenst það ekki skoðun. Það er aldeilis ekki skrýtið að þið séuð konfjúsuð.
Og bæðevei, ég er byrjaður að blogga aftur, einmitt út af biblíuskóla Varríusar.
Frábært að ég hafi dregið hinn sofandi Björn aftur úr bloggdvala sínum! Segið svo að þetta sé allt dauður bókstafur.
Ég veit ekki með Freud og hans skoðanir á forsögunni. Hef mínar efasemdir um það síðan ég las Undir oki siðmenningar þar sem kallinn segir að það sé vísindalega augljóst að þá fyrst náði maðurinn tökum á eldinum að honum tókst að hemja þá eðlishvöt sína að pissa á allan þann eld sem hann komst í tæri við.
Hvað 34. kafla varðar þá skil ég hann þannig að þegar guð er búinn að þylja þau fyrirmæli sem hann þylur þar, og eru ekki boðorðin tíu, þá komi hann sér að því verki sem fyrir liggur, að skrifa boðorðin tíu aftur eins og þau voru í kafla 22, en Móse hafði brotið þær töflur í bræði sinni yfir gullkálfsdansinum.
Því miður gengur þessi útskýring ekki upp.
Í 27-28 versi 34 kafla stendur:
Drottinn sagði við Móse: Skrifa þú upp þessi orð, því að samkvæmt þessum orðum hefi ég gjört sáttmála við þig og við Ísrael. ... Og hann skrifaði á töflurnar orð sáttmálans, tíu boðorðin.
Gott og vel
En það er erfitt að greina tíu boðorð út úr fyrirmælunum í 34. kafla. Og Þessi orð getur eins vísað í það sem Guð sagði næst, sumsé, dikteraði hin upprunalegu boðorð aftur. Og biblíuhöfundurinn hafi aldrei þessu vant stillt sig um að endurtaka það sem hann hafði áður skrifað.
Gott að Steingrímur Hermannsson skrifaði ekki Biblíuna, sbr. hin ódauðlegu orð hans: „Ég get ekki annað en endurtekið það sem ég hef þegar sagt!“
Var það ekki: ,,Ég get ekki endurtekið nema það sem ég hef áður sagt.``
Gæti verið. Það er a.m.k. betra svoleiðis.
Það er alls ekki erfitt að skipta þeim niður í tíu boðorð.
En mér finnst þú vera farinn að hljóma eins og aumasti bókstafstrúarmaður ef þú ætlar virkilega að halda því fram að þessi orð vísi til einhverra annarra orða en þeirra sem hann var að tala um.
Ég veit ekki hvernig þetta er á hebresku en í 27. versi segir gvuð:
Skrifa þú upp þessi orð, því að samkvæmt þessum orðum hefi ég gjört sáttmála við þig og við Ísrael.
Þeas, hann er búinn að gera sáttmálann þegar hann segir þetta. En ekki eins og 10. versi þar sem hann segir: "Sjá, ég gjöri sáttmála."
Hvers vegna er svona erfitt að viðurkenna að þetta er góð og gild útgáfa af boðorðunum tíu og reyndar einu boðorðin sem eru kölluð það í Biblíunni?
Skrifa ummæli