9.17.2005
4. Mósebók
Textinn
Samanburður
Kynning
1.820 í mínus
Snemma í fjórðu Mósebók er manntal. Samkvæmt því eru vopnfærir ísraelsmenn 603.550 talsins ári eftir að ferð þeirra frá Egiftalandi til þess fyrirheitna hófst. Þegar þeir eru komnir í áfangastað og ekkert eftir nema að hrekja íbúana burtu er aftur talið og kemur þá 601.730 upp úr kössunum. Fjörutíu ár eru liðin, og óhætt að segja að á ýmsu hafi gengið í samvinnu Guðs og manna. Guð er að reyna að aga óstýrlátan lýðinn, en stundum finnst manni hann ekki alveg vera að höndla uppeldishlutverkið sem skyldi. Ég næ t.d. alls ekki upp í ástæðu þess að Móse er á gamals aldri meinað að komast á leiðarenda í kafla 20. Það rauða spjald þykir mér ekki verðskuldað.
En ekki tjáir að deila við dómarann. Kannski er það helsti lærdómurinn sem draga má af þessari bók, sem að miklu leyti er saga um möglun og uppreisnir hins langþreytta lýðs og refsingarnar sem af þeim leiða.
Reyndar er athyglisvert að sjá hvernig manntalinu er skipað niður. Allt er skráð eftir ættkvíslum. Minnir á þann kafla sem allir þekkja úr biblíunni, sjálft jólaguðspjallið. Í því manntali hverfa allir til "sinnar borgar" eftir forfeðrum.
Fórnarlagabálkurinn birtist hér aftur, svo og leiðarlýsing ferðalagsins. Og fleiri lagabálkar og úrskurðir í sérmálum sem leiða af sér lög, eins og hvernig land skuli erfast í ættleggjum þar sem einungis fæðast dætur.
Athyglisverður eru lög um prófun vegna afbrýðisemi, sem finna má í 5. kafla. Ef mann grunar að kona hans hafi verið honum ótrú þá fara þau til prestsins og hann lætur hana drekka forarvatn sem hann blandar með því að hræra mold af gólfi herbúðarinnar saman við vatn. Ef henni verður ekki meint af hefur hún ekki verið ótrú.
Það eru svona kaflar innan um gleðiboðskap og réttlátar siðareglur sem við fyrstu kynni draga úr gildi bókarinnar sem lærdómsrits um góða breytni. Henni er klárlega ekki að treysta sem slíkri, við þurfum að velja og hafna hvaða ákvæði eru góð og hver vond. Og hvaðan kemur okkur myndugleiki eða vit til að gera það?
Í miðri bókinni er skemmtilegt ævintýri um Bíleam nokkurn, spámann meðal villiþjóða. Hann er ráðinn af óvinum Ísraels til að biðja þeim bölbæna, en mistekst það hrapallega, enda þylur hann einungis það sem Guð blæs honum í brjóst. Vinnuveitendur hans eru vitaskuld fúlir, en samskipti þeirra og Bíleams minna dálítið á glímu Bush og Blair við niðurstöður leyniþjónustumanna sinna um gereyðingarvopn í Írak. Sannleikurinn sem þeir fengu hentaði ekki, svo þeir breyttu honum. Eins er Balak Móabítakonungur fúll yfir því að hans maður segi sannleikann, en ólíkt hinum B-unum tveimur hefur hann ekki vit á að falsa niðurstöðurnar. Útkoman er svo frekar keimlík - sannleikurinn leitar út um síðir. Engin gerðeyðingarvopn í Írak, og ísraelsmenn eru að sönnu blessaðir.
Bókinni lýkur á bökkum Jórdanár, gegnt Jeríkó. Næsta mál er að ráðast þar inn og drepa allt mennskt sem fyrir verður.
Í biblíunni minni eru neðanmálsgreinar á stangli, sem ætlað er að útskýra torskild hugtök og annað skrítið sem á vegi lesandans verður. Stundum skil ég ekki alveg hvað er skýrt og hvað ekki. Guð gerir t.d. fullt af undraverðum kraftaverkum í mósebókunum, en það er aðeins tilvist Manna sem fær vísindalega útskýringu, í fjórðu Mósebók 11. kafla sjöunda vers. Þar ku sumsé vera á ferðinni eftirlæti skordýra sem lifa á blöðum runnans Tamarix mannifera sem vex á Sínaískaga.
Einmitt það já?
Hvernig skyldu nú ritstjórar Íslensku biblíunnar vita það? Og af hverju á þetta tiltekna kraftaverk sér náttúrufræðilegar skýringar sem vert er að segja frá, en ekki t.d. að Guð lætur af sama tilefni rigna Lynghænum. Eða klýfur rauðahafið. Hvað þá plágur Egiptalands.
Consistency please!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Það verður áhugavert að sjá hvernig þetta verður í nýju biblíuþýðingunni. Annars hef ég smakkað þetta umrædda Manna. Ég þekki Kúrda sem kom með svona í poka til Íslands og gaf mér smá. Það bragðaðist bara ágætlega en var alls ekki eins og brauð. Þetta leit út eins og sandur sem búið var að líma saman með hunangi og bragðaðist svipað. Hann hélt því fram að þetta væri manna og að það væri ákveðið tímabil á ári sem hægt væri að finna það. Hvort hér sé í raun á ferðinni það sama og Hebrear fengu í eyðimerkugöngunni miklu skal ósagt látið.
En frábært að sjá að þú hefur bragðað Manna. Finnst samt eiginlega eins og það eigi að vera bannað. En það eru áreiðanlega bara harðýðgisáhrif frá Mósebókum.
Og það kemur ekki til greina að banna Lynghæns!
hmm, hér í Svíþjóð er hægt að kaupa sk mannagrjón, sem ég hélt alltaf að væri sama manna og manna biblíunar, það er hægt að gera úr þeim ágætis graut, sem er svipaður á bragðið og hrísgrjónagrautur, en mun fljótgerðari, því umrædd mannagrjón erum mjög lítil.
Skrifa ummæli