5.08.2013

Síðari Konungabók


Textinn
Samanburður
Kynning

„Hmm, hvaða bók er nú þetta?“

Í tuttugasta og öðrum kafla Síðari Konungabókar dregur heldur betur til tíðinda. Þá er Jósía við völd í Júda, einn af „góðu konungunum“, og sautjándi konungur frá því dómarar hættu að stýra ríkinu (sjá fyrri Samúelsbók).

Eitt af því sem góðir konungar gera er að sinna viðhaldi og á átjánda valdaári sínu setur Jósía menn í að dytta að musterinu sem Salómon forfaðir hann reisti fyrir all-löngu. Síðan gerist þetta:

Þá mælti Hilkía æðsti prestur við Safan kanslara: „Ég hefi fundið lögbók í musteri Drottins." Og Hilkía fékk Safan bókina og hann las hana. [...] Og Safan kanslari sagði konungi frá og mælti: „Hilkía prestur fékk mér bók.“ Og Safan las hana fyrir konungi. En er konungur heyrði orð lögbókarinnar, reif hann klæði sín … (2KON 22. 8–11)

það er ekki nema von að brösulega hafi gengið að halda lögmálið! Hann gerir strax út menn til að ræða við Guð, og Hulda spákona fær eftirfarandi skilaboð:

Sjá, ég leiði ógæfu yfir þennan stað og íbúa hans, allar ógnanir bókar þessarar, er Júdakonungur hefir lesið, fyrir því að þeir hafa yfirgefið mig og fært öðrum guðum reykelsisfórnir og egnt mig til reiði með öllum handaverkum sínum, og heift mín skal upptendrast gegn þessum stað og eigi slokkna. En segið svo Júdakonungi, þeim er sendi yður til þess að ganga til frétta við Drottin: Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Af því að hjarta þitt hefir komist við og þú auðmýktir þig fyrir Drottni, er þú heyrðir, hvað ég hafði talað gegn þessum stað og íbúum hans, að þeir skyldu verða undrunarefni og formælingar, og af því að þú reifst klæði þín og grést frammi fyrir mér, þá hefi ég og bænheyrt þig - segir Drottinn. Fyrir því vil ég láta þig safnast til feðra þinna, að þú megir komast með friði í gröf þína, og augu þín þurfi ekki að horfa upp á alla þá ógæfu, er ég leiði yfir þennan stað. (2KON 22. 16–20)

Jósía gengur í að siðvæða samfélagið - brjóta ölturu og líkneskjur annarra trúarbragða. Og svo kemur þetta:

Konungur bauð öllum lýðnum á þessa leið: „Haldið Drottni Guði yðar páska, eins og ritað er í sáttmálsbók þessari.“ Engir slíkir páskar höfðu haldnir verið frá því á dögum dómaranna, er dæmt höfðu í Ísrael, né heldur alla daga Ísraelskonunga og Júdakonunga, en á átjánda ríkisári Jósía konungs voru Drottni haldnir þessir páskar í Jerúsalem. (2KON 23. 21–23)

Hér vakna nú aldeilis spurningarnar.

Var bara til eitt eintak af Mósebókum?

Saknaði þeirra enginn?

Hvernig komst það í musterið, sem Salómon reisti, en lögbókin búin að vera týnd síðan a.m.k. á dögum Samúels?

Guð er búinn að vera í reglulegu símasambandi við þetta lið, iðulega til að skammast yfir að þau haldi ekki lögmálið. Er það nokkur furða? Og af hverju fýkur svona sérstaklega í hann þegar þeir loksins finna það og geta hætt að giska á hvað honum líkar og hvað ekki?

Ekki nenni ég að reikna út hvað langt er um liðið síðan „á dögum dómaranna“, en það eru einhver árhundruð. Engir páskar í nokkrar aldir.

Og það er ekki í frásögur færandi!

Ég hef í undanförnum pistlum stundum verið að skopast með það að sumar persónurnar virðast ekki hafa lesið lögmálið, og svo kemur bara í ljós að það er ekkert djók - ENGINN hefur lesið lögmálið í einhverjar aldir.

Kannski er ég að misskilja eitthvað gróflega (held samt ekki), en þetta er eitthvað stærsta og furðulegasta „twist“ sem ég hef séð, og einn merkasti einstaki viðburður Biblíunnar fram til þessa.

Svo er þetta vissulega eitthvað málum blandið. Sjáum t.d. í 14 kapítula þegar einn af góðu kóngunum, Amasia, ákveður að hefna föður síns sem hafði verið drepinn af þjónum sínum. Því er lýst svona:

En börn morðingjanna lét hann ekki af lífi taka, samkvæmt því, sem skrifað er í lögmálsbók Móse, þar sem Drottinn mælir svo fyrir: ,Feður skulu ekki líflátnir verða ásamt börnunum, og börn skulu ekki líflátin verða ásamt feðrunum, heldur skal hver líflátinn verða fyrir sína eigin synd (2KON 14. 6)

Hver skal líflátinn fyrir sína eigin synd segir í Mósebókum. Sennilega er Guð líka búinn að týna sínu eintaki.

Bókinni lýkur á tortímingu musterisins og herleiðingu Júdamanna til Babýlon, en áður höfðu Norðurríkismenn verið fluttir nauðungarflutningi á vegum Assýríukonungs og aðrir menn þeim óskyldir settir niður í Ísrael . Assýringar voru víst mikið fyrir þessháttar tilfærslu á sigruðum þjóðum. Mörgum árhundruðum síðar beitti georgískt guðfræðidroppát sömu aðferð. Ætli Stalín hafi fengið hugmyndina við að lesa Konungabækurnar?

Megnið af textanum eru áframhaldandi tilbrigði við stefin úr fyrri bókinni. Konungar koma og fara, eru ýmist góðir eða illir í augum Drottins, og vegnar að einhverju leyti eftir því. Þó ríkti t.d. Manasse yfir Júdeu í ríflega hálfa öld þó hann endurbyggði Baahlof og Asérur sem Hiskía faðir hans (einn af hvítu höttunum) lét rífa niður. Sýrlendingar eru stöðug ógn við norðurríkið og tvö heimsveldi, Assýría og Babýlon, nálgast og láta ekki friðkaupatilraunir stöðva sig nema rétt til málamynda.

Í upphafi bókar er svo einn af einstökum lykilviðburðum Biblíunnar. Elía spámaður deyr … ekki. Hann er nefnilega á sérsamningi og er uppnuminn beint til himna. Elísa eftirmaður hans verður vitni að þessum einstaka atburði sem fær nú ekki ýkjamikð pláss eða tilþrifamikla afgreiðslu hjá höfundi bókarinnar:

En er þeir héldu áfram og voru að tala saman, þá kom allt í einu eldlegur vagn og eldlegir hestar og skildu þá að, og Elía fór til himins í stormviðri. Og er Elísa sá það, kallaði hann: "Faðir minn, faðir minn, þú Ísraels vagn og riddarar!" Og hann sá hann ekki framar. (2KON 2. 11-12)

Hvað skýrir þessa sérmeðferð Elía? Veit það ekki.

Drjúgur hluti bókarinnar eru svo kraftaverkasögur af Elísa. Þessi er best:

Þaðan hélt hann til Betel. Og er hann gekk upp veginn, gengu smásveinar út úr borginni, hæddu hann og kölluðu til hans: „Kom hingað, skalli! Kom hingað, skalli!“ Sneri hann sér þá við, og er hann sá þá, formælti hann þeim í nafni Drottins. Þá komu tvær birnur út úr skóginum og rifu í sundur fjörutíu og tvo af drengjunum. (2KON 2. 23–24)

Elísa – spéhræddi spámaðurinn. Hér myndum við náttúrulega aðallega stríða honum á nafninu.

Konungabækurnar eru viðburðaríkar og að mörgu leyti læsilegar og spennandi frásagnir, þó formúlan ræni stundum frásagnargleðinni og villimennskan sé yfirgengileg á köflum. Það er mannlegri tónn í þeim en í flestu því sem á undan fer. Gott dæmi er t.d. 7. kafli þar sem geisar hungursneyð í Samaríu (höfuðborg Norðurríkisins) og sjónarhornið þrengist skyndilega um fjóra holdsveika menn í borgarhliðinu. Mjög fallega gert.

Sögumaður gerir líka skemmtilega vart við sig á nokkrum stöðum, t.d. svona:

Þannig dýrkuðu þá þessar þjóðir Drottin, en þjónuðu þó um leið skurðgoðum sínum. Börn þeirra og barnabörn breyta og enn í dag eins og feður þeirra breyttu. (2KON 17. 41)

Allt í einu fáum við tilfinningu fyrir að bókin er skrifuð á einhverjum tilteknum tima. Við fáum ekkert að vita hver hann er, en þetta er samt nýbreytni í stíl Biblíunnar.

Þegar bókinni lýkur er Guðs útvalda þjóð á brott úr fyrirheitna landinu, öllu rúin. Hún týndi bókinni, gleymdi lögmálinu. Guði er nóg boðið, í bili að minnsta kosti.

1 ummæli:

Fljótur leið til að endurreisa þig með elskhuga þínum sagði...



Galdramyndir þínar til að giftast unnu mér. Vegna hjónabandar þinnar býð ég að ég er núna giftur. Takk a einhver fjöldi af Doc Hlutir. Ég skulda þér.Viltu samband við Doc ham Hér templeofanswer@hotmail.co.uk eða Whatsapp (+2348155425481)