9.21.2005

5. Mósebók


Textinn
Samanburður
Kynning


Síðasta bók Móse gerist á bökkum Jórdanár. Á austurbakka árinnar, nánar tiltekið, þar sem ferðalangarnir hafa komið sér fyrir til að undirbúa yfirtöku fyrirheitna landsins. Að forminu til er hún ávörp Mósesar til þjóðar sinnar, endursögn á sögunni só far og upprifjun laganna. Lögmálsins. Og eins og alltaf þegar lög þessrar bókar eru tíunduð á ný þá bætist eitthvað sniðugt við.

Hernaðarlögin í 20. kafla eru til dæmis skemmtileg. Þar er tilgreint hverjir skuli undanþegnir herþjónustu, og munar þar væntanlega mest um þá sem ekki þora. Þeir mega fara heim án þess að það kosti eitthvað vesen.

Það eru svona manneskjulegar smámyndir innan um forneskjulega grimmdina sem gera þetta svo skemmtilegt.

Reyndar hefur forneskjan algerlega sitt skemmtigildi líka. eins og til dæmis fyrirmælin um að ef sonur er óþægur og drykkfelldur þá skuli hann grýttur í hel (21. kafli). Eða að þeir sem hafa orðið fyrir meiðslum á viðkvæmum stað séu ekki lengur velkomnir í söfnuð Guðs (23. kafli). Í samræmi við það þá segir svo í 25. kafla:

Þegar tveir menn eru í áflogum, og kona annars hleypur að til þess að hjálpa manni sínum úr höndum þess, er slær hann, og hún réttir út höndina og tekur um hreðjar honum, þá skalt þú höggva af henni höndina og eigi líta hana vægðarauga.

Lifi réttlætið!

Einhvernveginn fær maður reyndar þá mynd af stöðu kvenna í gegnum þetta allt að heldur sé réttinda/skyldu ballansinn þeim í óhag. Þær virðast ekki eiga rétt á arfi nema ef þær séu svo heppnar að eiga enga bræður. Fjölkvæni er útbreytt, sem og hjákonuhald. Líkamsstarfsemi sú sem þær hafa umfram kallana er "óhrein".

En svo kemur ein grein sem lýsir sérréttindum fyrir konur. Og hún er frábær! Gefum Móse orðið:

Þegar bræður búa saman og einn þeirra deyr og á engan son, þá skal kona hins látna ekki giftast neinum manni úrættis. Mágur hennar skal ganga inn til hennar og taka hana sér fyrir konu og gegna mágskyldunni við hana, en fyrsti sonurinn, er hún fæðir, skal teljast sonur hins látna bróður hans, svo að nafn hans afmáist ekki úr Ísrael.

En ef manninn fýsir eigi að ganga að eiga bróðurkonu sína, þá skal hún ganga upp í borgarhliðið, til öldunganna, og segja: "Mágur minn færist undan að halda við nafni bróður síns í Ísrael. Hann vill ekki gegna mágskyldunni við mig."

Öldungar borgar hans skulu þá kalla hann fyrir og tala við hann, og ef hann stendur fastur fyrir og segir: "Mig fýsir eigi að ganga að eiga hana," þá skal mágkona hans ganga að honum í viðurvist öldunganna, draga skóinn af fæti honum, hrækja framan í hann, taka til máls og segja: "Svo skal fara með hvern þann, er eigi vill reisa við ætt bróður síns." Og ætt hans skal í Ísrael nefnd Berfótsætt.

Þess má geta í afturvirku framhjáhlaupi að dæmi um mágsskyldu er að finna í fyrstu Mósebók, en þar svíkst Ónan nokkur um að sæða mágkonu sína en lætur safann frekar fara til spillis. Það líkar Guði ekki og slær Ónan af, væntanlega svo hann verði ekki blindur af öllu rúnkinu. Tækniorðið yfir svoleiðis handbrögð er síðan kennt við Ónan þennan á helstu menningarmálum.

Eins og fyrri daginn eru sum lögin skynsamleg frá okkar bæjardyrum séð, önnur allsendis furðuleg. Enn furðulegra er að enn skuli vera meðal vor einhverjir sem vísa í þessi lög til að réttlæta fordóma sína og afturhaldssemi. Allir eru þeir undir sömu sök seldir og við hin: að leggja sjálfstæða siðferðilega dóma á það sem þessi lög hafa að geyma. Siðareglur sem kalla á svoleiðis eru ekki til mikils gagns er það? Nema náttúrulega til að reyna að skilja fólkið sem lifði eftir þeim, eða reyndi það allavega.

Fimmta Mósebók er á köflum magnaður texti. Sérstaklega blessana- og bölvanakaflinn í 27. og 28. kafla. Bölbænirnar eru sérlega mergjaðar eins og gengur. Lesið þær endilega, bara ekki í viðkvæmu ástandi. Það hríslast óneitanlega um mann gæsahúð þegar ótrúfesti gyðinga er sögð kalla yfir þá þjóð eina:

...úr fjarlægð, frá enda jarðarinnar, og kemur hún fljúgandi eins og örn, þjóð, hverrar tungu þú ekki skilur, illúðlegri þjóð, sem eigi skeytir manngrein gamalmenna og enga vægð sýnir ungmennum.

Sem situr um og myrðir og dregur alla mennsku úr hinum útvöldu.

En nóg komið af hinu ljóta. Svei mér ef ég hef ekki fundið ljómandi skemmtilega prentvillu í Biblíunni minni!

Ég keypti mér sumsé svona nýmóðins pappírskiljubiblíu sem einhver bévítans auglýsingastofa hannaði kápu á með myndum af þunglyndislegu fólki utaná. Ódýr og þess eðlis að maður hikar ekki við að krota og undirstrika það sem við á.

En allavega. Eitt af þeim lögum sem Drottinn er ákveðinn í að lýður hans skuli hlíta er að ekki megi sjóða kiðlinga í mjólk móður sinnar.Skemmtilegt og skrítið ákvæði, svolítið eins og Skólavörðustígur að því leyti. Þetta er líka tekið fram í 2. Mósebók 34. kafla, og ítrekað hér.

Nema hvað að í 5. Mósebók, 14. kafla, 21. versi í bókinni minni stendur skýrum stöfum:

Þú skalt ekki sjóða kið í mjólk móður þinnar

Leturbreyting mín.

Það sama er upp á teningnum hjá netútgáfunni

Aðrar biblíuútgáfur sem ég hef skoðað og skilið benda eindregið til þess að þetta sé prentvilla, og ef svo er þá er hún með þeim meinlegustu sem ég hef séð. Þó er lagagreinin öllu skiljanlegri svona, einhvern vegin meira vit í að banna svo óvirðulega meðferð á brjóstamjólk.

Metið í meinlegheitum á samt tvímælalaust prentun á hinni mögnuðu King James biblíu frá 1632, en villan sú kostaði prentarann árslaun og ávann útgáfunni viðurnefnið "The Wicked Bible". Lesið sjálf!

En þetta var útúrdúr. Hér skiljum við við Ísraelslýð að sinni. Sofandi í herbúðum sínum, Móses dáinn, lúðrasveitarstjórinn Jósúa tekinn við. Allir ólmir að svamla yfir ána og drepa handan hennar allt kvikt að undirlagi Guðs.

Þetta er búið að vera magnað ferðalag, og sagan er rétt að byrja...

Leiðrétting. Hýrudráttur prentarans var reyndar öllu róttækari, nam æfilaunum hans. Á þetta benti Þorkell réttilega.

4 ummæli:

Ásta sagði...

Uppáhald þýðingarvillan mín er úr 1. Mósesbók – 3 kafli. Ég veit ekki hvaða útgáfu var stuðst við þegar bókin var þýdd á íslensku en þetta er úr hinn ensku King James biblíu:

6 So when the woman saw that the tree was good for food, that it was pleasant to the eyes, and a tree desirable to make one wise, she took of its fruit and ate. She also gave to her husband with her, and he ate.

Og svo sú íslenska:

6. En er konan sá, að tréð var gott að eta af, fagurt á að líta og girnilegt til fróðleiks, þá tók hún af ávexti þess og át, og hún gaf einnig manni sínum, sem með henni var, og hann át.

Þannig að annað hvort stóð Adam eins og álfur við hliðina á henni og boraði í nefið á meðan hann beið eftir eplinu sínu … eða ekki.

Nafnlaus sagði...

Fyrst að Adam og Evu. Ekki er ljóst samkvæmt hebreska textanum hvort Eva hafi gefið ,,manni sínum með sér“ eða gefið ,,manni sínum sem var með henni “. Margar mikilsvirtar biblíuþýðingar velja síðari kostinn, t.d. New Revised Standard Version. Sjálfur tek ég undir það val en þótt við veldum fyrri kostinn þá firrir það ekki Adam ábyrgð í þessu máli. Ef höfundur hefði viljað undirstrika sakleysi Adams hefði hann sagt það berum orðum. Hvergi er tekið fram að Eva hafi farið til Adams eða hann ekki vitað hvaðan ávöxturinn var kominn.

Hvað mjólk móður hans/þinnar varðar þá stendur í minni hebresku útgáfu "móður hans" og því líklega villa hér á ferð. Það væri þó gaman að flétta þessu betur upp og leita orsakanna. Það er nefnilega þýðingarregla að ef maður þarf að velja á milli ólíkra leshátta þá velji maður oftast þann sem er erfiðari og ruglingslegri enda líklegra að fólk reyni að leiðrétta texta en hitt. Það má því vel vera að það standi í einhverjum handritum "móður þinnar".

Annars átt þú skemmtilega daga framundan Varríus. Jósúabók og allt til Konungabókanna eru frábær lesning. Bókmenntir gerast varla betri en þessar bækur.

Nafnlaus sagði...

Já og smá smámunalegheit. Prentarar The Wicked Bible þurftu að greiða lífslaun í skaðabætur, ekki árslaun. Já, villur geta verið dýrkeyptar :-)

Gadfly sagði...

Ég hef aldrei reynt að sjóða kið í geitarmjólk enda fæst hvorugt í Bónus. Mér finnst það heldur ekkert hljóma sérlega girnilega. En er það annars nokkuð óhollt? Getur ekki bara verið að Guði hafi fundist tilhugsunin ógeðsleg? Hann virðist ærið duttlungafullur á köflum svo ég hallast helst að þeirri skýringu á þessu undarlega lagaákvæði.